Veftré Print page English

Dorrit Moussaieff forsetafrúDorrit Moussaieff forsetafrú

 

Dorrit Moussaieff er fædd 12. janúar 1950 í Jerúsalem en foreldrar hennar Alisa og Shlomo Moussaieff hafa í áratugi fengist við skartgripaviðskipti. Faðir hennar er meðal fremstu safnara heims á fornminjum sem tengjast tímum Gamla testamentisins.


Dorrit fluttist ung að árum til London. Vegna lesblindu sótti hún ekki reglubundna skóla en naut heimakennslu.


Dorrit hefur um árabil fengist við skartgripaviðskipti með áherslu á sjaldgæfa steina og einnig stundað ýmis önnur viðskipti. Á árum áður hafði hún einnig umsjón með innréttingu fjölmargra gamalla og sögufrægra húsa, einkum í Bretlandi. Hún hefur verið greinahöfundur í breskum tímaritum og í áratugi tekið þátt í margvíslegu menningarlífi, einkum í Bretlandi og Bandaríkjunum, og starfað með fjölmörgum áhrifamönnum í listum og viðskiptum í ýmsum löndum.


Dorrit trúlofaðist Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands árið 2000. Þau giftu sig á afmælisdegi forsetans 14. maí 2003.


Dorrit hefur á undanförnum árum einkum beitt sér fyrir því að kynna íslenska menningu og listir á alþjóðavettvangi, koma ungu íslensku listafólki á framfæri og leggja lið velferðarmálum barna og unglinga, einkum þeirra sem eiga við fötlun og geðræn vandamál að stríða. Hún hefur einnig ásamt forsetanum tekið virkan þátt í því að styrkja útrás íslenskra fyrirtækja og markaðsöflun á erlendum vettvangi.

Dorrit á tvær systur.